Austfirðingur: „Þá fékk ég aðeins kjánahroll“

Halla Hrund, Arnar Þór, Baldur og Halla Tómasdóttir bar á …
Halla Hrund, Arnar Þór, Baldur og Halla Tómasdóttir bar á góma í viðtölum mbl.is við nokkra Austfirðinga. Samsett mynd

Austfirðingarnir sem mbl.is ræddi við í Nettó á Egilsstöðum ætla allir að kjósa í komandi forsetakosningum 1. júní. Það var þó mjög mismunandi hvað þeir hygðust kjósa.

„Ég ætla kjósa Baldur,“ segir hinn 19 ára gamli Sebastian Andri Kjartansson í samtali við mbl.is.

Morgunblaðið og mbl.is eru á Egilsstöðum vegna borgarafundar sem haldinn verður í félagsheimilinu Valaskjálf klukkan 19.30 með Höllu Hrund Logadóttur. Allir eru velkomnir á þann fund á meðan húsrúm leyfir.

Sebastian er 19 ára gamall og að kjósa í fyrsta …
Sebastian er 19 ára gamall og að kjósa í fyrsta sinn. mbl.is/Ásthildur Hannesdóttir

Kýs í fyrsta sinn

Þetta eru fyrstu kosningarnar sem Sebastian tekur þátt í og hefur hann fylgst með kosningabaráttunni hjá frambjóðendum til að taka upplýsta ákvörðun.

„Ég er búinn að vera fylgjast af og til með þessu og Baldur hefur bakgrunninn í stjórnmálafræðinni, sem er svona sterkur grunnur fyrir þetta,“ segir Sebastian og bætir við að það skipti hann máli að forseti sé ekki flokkspólitískur.

Hann kveðst upphaflega hafa líkað vel við Höllu Hrund Logadóttur en er ekki lengur á þeim vagni eftir að horft á kappræður hjá Heimildinni.

„Þegar hún var að forðast spurningarnar þá fékk ég aðeins kjánahroll,“ segir Sebastian að lokum.

Kristbjörgu líst ágætlega á Arnar en segir hann vera lítið …
Kristbjörgu líst ágætlega á Arnar en segir hann vera lítið í sviðsljósinu. mbl.is/Ásthildur Hannesdóttir

Segir Arnar geta unnið hennar atkvæði

Kristbjörg Hannesdóttir er búsett og uppalin á Egilsstöðum og starfar hjá Nettó. Hún kveðst hafa verið búin að ákveða sig á fyrri stigum kosningabaráttunnar en er núna ekki lengur viss um hvern hún muni kjósa.

Hún horfði á kappræðurnar á Ríkisútvarpinu síðastliðinn föstudag og telur sig þurfa að horfa á fleiri kappræður.

„Ég fékk álit á einum manni en hann er eitthvað svo voðalega lítið í sviðsljósinu,“ segir Kristbjörg í samtali við mbl.is og kveðst vera að vísa í Arnar Þór Jónsson.

Hún væri til að sjá meira af honum og segir hann eiga möguleika á hennar atkvæði. Hún útilokar ekki að ákveða sig í kjörklefanum 1. júní.

Hrafnhildur Einarsdóttir kaus Höllu Tómasdóttur árið 2016 og telur líklegt …
Hrafnhildur Einarsdóttir kaus Höllu Tómasdóttur árið 2016 og telur líklegt að hún geri það aftur þann 1. júní. mbl.is/Ásthildur Hannesdóttir

Hallast að Höllu Tómasdóttur

Hrafnhildur Einarsdóttir er búsett á Egilsstöðum þó hún eigi uppruna sinn að rekja til Fáskrúðsfjarðar. Hún kveðst ekki hafa fylgst mikið með kosningabaráttu frambjóðendanna en horfði þó á kappræðurnar á Ríkisútvarpinu.

„Ég er svona 90% viss um að ég ætli að kjósa Höllu [Tómasdóttur],“ segir Hrafnhildur í samtali við mbl.is.

Ertu alveg búin að ákveða þig eða er eitthvað sem gæti breytt skoðun þinni?

„Ég er ekki 100% en ég kaus Höllu síðast þegar Guðni varð forseti og ég hallast svolítið að henni,“ segir Hrafnhildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert