Eðlilegt að fjör sé að færast í leikinn

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi. mbl.is/Arnþór

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, segist þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fundið og að fólk sjái hana fyrir sér í því þýðingarmikla embætti sem embætti forseti Íslands sé.

Halla Hrund hélt for­ystu sinni í viku­legri skoðana­könn­un Pró­sents fyr­ir Morg­un­blaðið, sem birt var í dag en 29,7% þeirra sem af­stöðu tóku til fram­bjóðenda í for­seta­kjöri sögðust vilja hana helst í embætti forseta Íslands.

Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur næst mest fylgi ef marka má könnun Prósents frá í dag með 21,3% en Baldur Þórhallsson er með 20,4% fylgi. Fylgismunur á milli Katrínar og Baldurs telst ekki tölfræðilega marktækur.

Sama veður og sami andi

Segir Halla Hrund meðbyrinn í takt við þær hlýju móttökur sem hún hafi fengið um allt land. „Nú er ég á Austurlandi þar sem sólin skín og fjöllin glampa. Það er sama veður og sami andi sem hefur tekið á móti okkur um allt land - þessi birta og hlýja,“ segir Halla, greinilega uppfull af andagift landsbyggðarinnar.

Þá segist hún finna að fólk tengi við bakgrunn sinn og þau gildi sem hún hefur verið að tala fyrir. Fólk tengi við þau ólíku svið sem hún hafi reynslu af og að fólk telji mikilvægt að forsetinn hafi skining á ólíkum þáttum samfélagsins og reynslu af því að vinna verkin. „Samfélagið snýst um að vinna saman og vinna verkin og auka lífsgleði og þátttöku fólks um leið.“

Segist hún finna að fólk samsvari sig við þær áherslur sem hún tali fyrir sem séu þær að forsetinn eigi að draga fólk saman. Hann eigi að auka bjartsýni landans og hvetja fólk áfram. „Hann á að hjálpa tækifærum á Íslandi um allt land, sem eru endalaus. Forsetinn á að vera liðsmaður í því að hjálpa tækifærunum að vaxa þvert á samfélagið.“

Halla segir langt í land og auðvitað sé aðeins um eina könnun að ræða. Spurð hvort kosningabaráttan sé farin að harðna segir Halla Hrund eðlilegt að fjör færist í leikinn þegar nær dragi. Segist hún leggja upp úr því að vinna sína kosningabaráttu með jákvæðni og heilindi að leiðarljósi og leggja upp úr því að sá andi svífi yfir framboðinu sem hún vilji standa fyrir sem forseti Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert