„Greinlega allt á réttri leið“

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi.
Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi segir allt stefna í spennandi forsetakosningar sem fram fara 1. júní næstkomandi þar sem tólf manns, sex karlar og sex konur, eru í framboði.

Í nýrri skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið, sem birt er í dag, hefur fylgi Katrínar aukist á milli vikna. Hún mælist með 21,3 prósent en var með 18 prósent í liðinni viku.

„Þessar skoðanakannanir eru svo misvísandi en ég las það í einhverri fyrirsögn í morgun að ég væri að sækja í mig veðrið sem mér finnst ánægjulegt. Ég gleðst yfir því og þetta er greinilega allt á réttri leið,“ segir Katrín við mbl.is.

Halla Hrund Logadóttir mælist með mesta fylgið í könnuninni eða 29,7 prósent, Katrín kemur næst með 21,3 og Baldur Þórhallsson mælist með 20,4 prósenta fylgi. Ekki er tölfræðilega marktækur munur á milli Katrínar og Baldurs.

Eigum eftir að sjá töluverðar sviptingar

Katrín segir enn langt í kosningarnar og finnst henni að kosningabaráttan sé að rétt að byrja. Hún var stödd í Reykjanesbæ þegar mbl.is náði tali af henni en þar segist hún ætla að eyða deginum og verður með fund þar í kvöld. Katrín segir að fólk út um allt landi hafi tekið sér mjög vel.

„Ég held að þetta eigi eftir að verða spennandi kosningar. Við eigum eftir að sjá töluverðar sviptingar eftir því sem baráttunni vindur fram,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert