Albert til Bayern München?

Albert Guðmundsson er orðaður við þýska stórveldið Bayern München.
Albert Guðmundsson er orðaður við þýska stórveldið Bayern München. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og sóknarmaður Genoa, hefur vakið áhuga fjölda stórliða á yfirstandandi tímabili fyrir vasklega framgöngu sína á Ítalíu. Nýjasta félagið sem er sagt áhugasamt um hann er þýska stórveldið Bayern München.

Ítalski miðillinn Calciomercato greinir frá því að Bayern myndi ekki eiga í nokkrum vandræðum með að reiða fram þær 35 milljónir evra sem Genoa vill fá fyrir Albert í sumar.

Ítalíumeistarar Inter, bikarmeistarar Juventus og Napoli eru öll mjög áhugasöm um Íslendinginn auk þess sem ensku úrvalsdeildarfélögin Tottenham Hotspur og West Ham United hafa sýnt honum áhuga.

Samkvæmt miðlinum hefur áhugi Bæjara aukist að undanförnu og ætti Albert því að hafa úr nóg af spennandi tilboðum að velja í sumar.

Hann hefur skorað 16 mörk í 35 leikjum í öllum keppnum með Genoa á tímabilinu, og lagt upp fjögur til viðbótar. Þar af eru 14 mörk í ítölsku A-deildinni, þar sem hann er 4. – 5. markahæstur ásamt Olivier Giroud.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert