Sýndum að við erum bestar

Ásdís Þóra Ágústsdóttir (nr.13) knúsar systur sína Lilju eftir að …
Ásdís Þóra Ágústsdóttir (nr.13) knúsar systur sína Lilju eftir að titillinn var í höfn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður ógeðslega vel. Við vildum klára þær í þremur leikjum en Haukar eru þannig lið að það er ekkert hægt að leika sér að eldinum við þær,“ sagði Ásdís Þóra Ágústsdóttir, leikmaður Vals, eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna með sigri á Haukum í kvöld.

„Við þurftum að halda fókus og sýndum að við erum betri en þær. Við sýndum að við erum bestar,“ hélt Ásdís Þóra áfram.

Valur byrjaði illa og lenti 0:4, 1:5 og 2:6 undir. Þá tók Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals og faðir Ásdísar Þóru, leikhlé.

Hverju breyttuð þið eftir leikhléið?

„Við komum eiginlega allt of upptjúnaðar inn í leikinn, ætluðum að skora tvö mörk í hverri sókn og verja tvo bolta í hverri vörn.

Við tókum leikhlé, pústuðum aðeins, núllstilltum okkur og komum betri inn í þetta eftir leikhlé, sem betur fer,“ útskýrði hún.

Jafnræði var með liðunum framan í síðari hálfleik og staðan jöfn, 16:16, eftir um 40 mínútna leik. Í kjölfarið skoraði Valur fimm mörk og fór langt með sigurinn.

„Við töluðum um það í hálfleik að við ættum ennþá nokkra gíra inni. Mér fannst við sýna það þá.

Sem betur fer sýndum við okkar rétta andlit. Þetta var ekkert spes fyrri hálfleikur hjá okkur,“ sagði Ásdís Þóra.

Hvernig er tilfinningin að hafa unnið þrefalt?

„Það er bara geggjað. Við erum með frábært lið og marga ótrúlega góða leikmenn. Það þarf samt að spila vel saman og hafa góða liðsheild.

Við erum með frábæra liðsheild, erum allar mjög góðar vinkonur og treystum hverri annarri fyrir öllu.

Við förum saman í öll verkefni, spilum alla leiki og æfum fyrir fyrir hverja aðra. Þetta er það skemmtilegasta sem við gerum,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert