Í öðru sæti á sterku móti

Sindri Hrafn Guðmundsson er afar fær spjótkastari.
Sindri Hrafn Guðmundsson er afar fær spjótkastari. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Spjótkastarinn Sindri Hrafn Guðmundsson úr FH keppti á sterku móti, USATF Throws Festival, í Tucson í Arizona-ríki í Bandaríkjunum um liðna helgi og hafnaði þar í öðru sæti.

Þar var hann í hópi 14 afar sterkra spjótkastara og náði sínum besta árangri.

Sindri Hrafn kastaði lengst 81,21 m og tryggði sér með því annað sætið.

Auk þess að bæta sinn persónulega árangur bætti hann með kastinu stöðu sína á heims- og Evrópulistum í spjótkasti. Hann er nú í 19. sæti í heiminum á þessu ári og í níunda sæti í Evrópu.

Næsta mót verður Norðurlandameistaramót í frjálsum íþróttum sem fer fram í Malmö 18.-19. maí. Þar á hann titil að verja frá árinu 2023.

Sindri er þriðji besti spjótkastari Íslands frá upphafi en aðeins Einar Vilhjálmsson (86,80 metrar) og Sigurður Einarsson (84,94 metrar) hafa kastað lengra. Þeir voru báðir meðal bestu spjótkastara heims á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert